Þessa daga, þegar sólin skín svo skært og rétt vantar herslumuninn á að hitastigið sé komið í hinn íslenska sumargír, er ekki úr vegi að rifja upp hvernig hægt er að hreinsa kroppinn á eðlilegan máta með því að vita af nokkrum einföldum detox-ráðum.

Sérfræðingar Mind Body Green-heilsubankans hafa tekið saman eftirfarandi einföld 15 ráð. Það þarf svo sem ekkert að innleiða þau öll, en gott er að vita af þeim engu að síður:

1. Volgt sítrónuvatn

Þetta liggur beint við – drekktu volgt vatn í morgunsárið með smá sítrónusafa út í og jafnvel smá cayenne-pipar. Þessi blanda kemur kroppnum klárlega af stað.

2. Nýpressaður ávaxtasafi

Stútfullur af næringarefnum, helst á fastandi maga, jafnast ferskur safi á við orkuskot. Munið bara að því meira af grænu hráefni, því betra.

3. Skiptu kaffinu út fyrir detox-te yfir daginn 

Blöndur sem innihalda eitthvað af eftirfarandi eru allar góðar; lakkrísrót, engifer, sítróna, túnfífill o.s.frv.

 

4. Bættu eplaediki við mataræðið. 

Eplaedik er til margra hluta nytsamlegt, ekki síst þar sem það hjálpar til við að afsýra líkamann og lifrinni að hreinsa sig. Best er að kaupa það lífrænt og ósíað.

5. Nóg af matvælum og bætiefnum ríkum af andoxunarefnum 

Lifrin og nýrun standa í ströngu alla daga við hreinsunarstarfið í kroppnum, þ.e. að sía góðu næringarefnin úr fæðunni frá þeim síðri. Til að styrkja þessi líffæri í starfseminni hjálpar að hafa alltaf eitthvað af eftirfarandi sem hluta af fæðunni eða bætiefnunum sem við neytum; steinselja, sellerí, fífla- eða lakkrísrót, cayenne-pipar, túrmerik, hvítlaukur, sítrónur og lime, söl, rauðar paprikur, ætiþistlar, rauðbeður, hveitigras og spírulína.

6. Borðið hreina fæðu

Forðist fiskmeti sem er ríkt af kvikasilfri svo sem túnfiskur, hákarl, sverðfiskur, makríll o.fl. Einnig allar unnar vörur og hvítan sykur. Þá þarf varla að taka það fram að áfengið og koffínið er af hinu illa… en það vitum við svo sem. Ef kostur er á að velja lífrænt og kostar ekki alltaf annan handlegginn, þá er mælt með því.

7. Svitnið

Sána, hreyfing, hot-yoga eða annað – við það að svitna losnar um eiturefni sem vilja setjast fyrir í fituvefjum. Gamla gufubaðið stendur nefnilega enn fyrir sínu.


8. Hopp

Hver hefur ekki gaman af því að ganga í barndóm af og til? (Svo lengi sem hnén eru í lagi). Samkvæmt sérfræðingum heilsusíðunnar hefur verið sýnt fram á að hopp henta vel til að auka blóðflæði. Nú þegar trampólín eru í öðrum hverjum garði má klárlega hafa þetta í huga.

9. Trefjar

Trefjar eru meltingarkerfinu nauðsynlegar (og þar með geðheilsunni líka). Svo passið upp á að fá nóg af þeim, helst úr fæðunni en einnig er hægt að taka bætiefni.

10. Þurrburstaðu líkamann

Það er góð regla að þurrbursta líkamann fyrir sturtu. Langar strokur í átt að hjarta auka ekki einungis blóðflæðið um líkamann heldur virkja einnig vessakerfi hans og þar með hreinsunarstarfið.

 

11. Burstaðu líka tunguna

Þetta hljómar einkennilega en virkar engu að síður. Með því að enda tannburstun á að renna aðeins yfir tunguna losar maður hana við bakteríur sem geta hafa safnast þar saman yfir daginn eða nóttina. Plús það að þetta stuðlar líka að hreinni andardrætti.

12. Prófaðu vatnsmeðferð.

Auðveld leið til að innleiða vatnsmeðferð í eigin rútínu er að skipta nokkrum sinnum ört yfir í kalt vatn þegar maður er annars í heitri sturtu. Kalda vatnið örvar blóðflæðið en það heita hægir á því. Gamalt ráð var að enda alltaf sturtuna á snöggri kaldri gusu.

13. Detox bað.

Hér er uppskrift að guðdómlegri detox-saltblöndu í heitt bað, þegar maður hefur tíma:

  • Epsom-salt eða úr Dauða hafinu (2 bollar): Hreinsar húðina.
  • Matarsódi (2 bollar): Náttúrulegri afsýrunareiginleikar.
  • Ferskt mulið engifer (1 msk): Gott fyrir húðina
  • Ilmolía að eigin vali (4 dropar).

14. Farðu í nudd af og til

Nudd er ekki bara slakandi og gott. Það virkar líka örvandi á blóðstreymið, virkjar vessakerfi líkamans og losar um eiturefni.

15. Gerðu heimilið þitt heilsusamlegt

Forðist hörð, óumhverfisvæn hreinsunarefni, hafið blóm á heimilinu (friðarliljur og pálmar eru frábærar náttúrulegar loftræstingar) og veltið fyrir ykkur að hafa rakatæki á heimilinu eða jafnvel afjónunartæki. Möguleikarnir eru fjölmargir.