norðurljósaspá ovation þrívídd norðurljósaspá veðurstofu íslands norðurljósaspá háskólans í alaska cme mass over the north pole of the earth X-ray Flux Monitor space weather now sólblettir magnetometer in usa spaceweather and other events in the space.  northern lights forecast

Aurora borealis, það sem við köllum Norðurljósin eru samkvæmt meðaltalinu að nálgast hámark 11 ára sveiflu sinnar um þessar mundir. Næstu 2 árin eða um það bil til 2015 má búast við tignarlegum ljósasýningum á heiðskýrum næturhimninum.

Fyrir íbúa á mestu þéttbýlissvæðunum þarf þó að hafa töluvert fyrir því að sjá þessar einstöku ljósasýningar því  einhvern veginn þarf að komast út fyrir ljósmengun þá sem stafar frá borgum og bæjum. Öfugt við það sem gerðist fyrir örfáum árum þá þarf að aka nokkurn spöl út fyrir byggð til að sjá þetta fyrirbæri í fullum styrk og oftast eru þau alls ekki sýnileg í byggð nema þegar krafturinn er sem mestur í þeim.

Á nýlegum lista yfir þau fyrirbæri sem jarðarbúar verða að sjá einhverntíman á lifsleiðinni eru norðurljósin eitt af efstu atriðunum.

Eins og sjá má á norðurljósaspásíðu Gult.is er Ísland staðsett á albesta stað fyrir áhugasama á miðjum kraga þar sem norðurljósin myndast enda eru nú japanskir vísindamenn komnir með bækistöðvar hér á landi fyrir norðurljósarannsóknir þeirra og Kínverska heimskautastofnunin er að setja upp rannsóknarstöð.

Gaman er að geta þess að norðurljósin skipa sérstakan sess sum staðar í þjóðtrú austurlandabúa.

Segir þar að norðurljósin séu andardráttur drekans mikla og að börn sem eru getin undir dansandi norðurljósum verði afburðamanneskjur á öllum sviðum. Segir sagan að pör frá austurlöndum stödd hér á landi hlaupi jafnvel inn á herbergi þegar norðurljósin birtast öfugt við fólk frá öðrum löndum sem fer yfirleitt út fyrir til að dást að fyrirbærinu 🙂

Norðurljósin og raunar líka suðurljósin verða til í lofthjúp jarðar, í um 100-250 km hæð.

Frá sólinni berst í sífellu svonefndur sólvindur sem er straumur rafhlaðinna agna. Þegar sólvindurinn nálgast jörðina hrindir segulsvið jarðarinnar honum frá sér nema í kringum segulpólana. Þar örvast sameindir og frumeindir í hjúpnum og þær senda frá sér sýnilegt ljós sem við köllum norðurljós  eða suðurljós. þessir sólvindar eru æði misjafnir frá degi til dags.

Mesti styrkurinn virðist vera 1-3 dögum eftir sólgos sem koma frá svokölluðum sólblettum.

Á ensku kallast þetta coronal mass ejection skammstafað CME og mætti þýða lauslega sem efniseindaþeytingu.

Einnig er annað fyrirbæri sem veldur auknum norðurljósum og nefnist það á ensku “coronal hole”. Þetta fyrirbæri birtist á afmörkuðu svæði og er einskonar truflun á segulsviði sólarinnar. Það veldur auknu streymi sólvinds frá þessu svæði sem aftur framkallar aukin norðurljós þegar efniseindir sólvindsins ná til segulhjúps jarðarinnar.

Þessi tvö fyrirbæri sem valda þessum auknu norðurljósasýningum eru bæði stefnuvirk og þurfa að birtast á þeirri hlið sólarinnar sem snýr að jörðu til að hafa áhrif hér.

Stór sólgos geta haft truflandi áhrif á fjarskipti og í alverstu tilfellum sem eru raunar afar sjaldgæf  geta komið fram truflanir í raforkukerfum. Í norður Ameríku olli stórt sólgos til að mynda tímabundnu rafmagnsleysi fyrir þónokkrum árum.

Vegna þessa er fylgst grannt með virkni sólarinnar og er hægt að sjá rauntímagögn víða á netinu.

Á norðurljósaspásíðu Gult.is eru flýtigluggar á helstu síður sem tengjast athugunum á sólvirkninni.

Þegar fylgst er með sólgosum með sérhönnuðum stjörnukíkjum sjást þau hér á jörðinni um 8 mínútum eftir að þau gerast en rafhlöðnu efniseindirnar eða sólmassinn frá þeim er aftur á móti eins og áður sagði um það bil 1-3 daga á leiðinni til jarðar eftir því hversu kröftug gosin eru. Því er hægt að sjá fyrir með nokkuð góðum fyrirvara hvort von sé á kröftugum norðurljósum. Þessar spár verða þó alltaf ónákvæmar en gefa þó góða hugmynd um það  hvort ástæða sé til að leggja á sig næturbrölt.

Einnig er rétt að geta þess að nauðsynlegt er að fara út fyrir áðurnefnda ljósmengun götulýsinga til að sjá norðurljósin í öllu sýnu veldi.

1 – 2 kílómetrar út fyrir götulýsingu ætti að vera nægilegt. Þeir sem hafa séð norðurljósin í algerri kyrrð langt frá skarkala mannlífsins hafa greint lágvært suðið frá þeim þegar þau eru sem fjörugust.

Skoðið norðurljósaspásíðu Gult.is ef ætlunin er að fara út af örkinni í skoðunarferð.

Heimildir fengnar af ýmsum opinberum vefsíðum. Bendi sérstaklega á stórfróðlegar greinar Þorsteins Sæmundsonar stjörnufræðings um Norðurljósin og ljósmengun.