Norðurljósaspá

Það dregur til tíðinda

NORÐURLJÓSASPÁ.

solgos001

Stór sólblettur er að koma sér í skotstöðu.

Á næturhimninum dregur nú til tíðinda. Kórónuhola sendir aukið streymi efniseinda í átt til Jarðar og risastór sólblettur er að koma sér í skotstöðu með sólgos. Streymið frá kórónuholunni ætti að ná að segulhjúpi Jarðar í kring um 22. okt. og tendra upp norðurljósasýningu fyrir þá fjölmörgu erlendu ferðamenn sem hingað koma að vetrarlagi nú meðan sólvirknin er í hámarki. Sólbletturinn risastóri hefur verið að senda frá sér stór sólgos þegar hann sneri frá Jörðu. Yfirborð Sólar snýst um sjálft sig þannig að sólblettirnir færast frá vestri til austurs á yfirborðinu. Við miðbaug sólarinnar er snúningstíminn 25 sólarhringar en aftur á móti 35 sólarhringar við pólana. Sólblettir við miðbaug sólarinnar sjást því frá Jörðu í um 12 – 15 daga en þeir eru einungis í skotlínu í 4-6 daga þar sem sólgosin eru að einhverju leiti stefnuvirk. Sólbletturinn stóri ætti því að vera kominn á áhrifasvæði Jarðar eftir 1-2 daga og verði sólgos eru agnirnar að meðaltali um 3 sólarhringa að ná að segulhjúpi Jarðar. Þessu fylgjast áhugasamir jarðarbúar með í öllum heimshlutum og flykkjast á norðurslóðir strax og vart verður við sólgos.