Um ljósmengun

Eftir Þorstein Sæmundsson Stjörnufræðing.

 

(Tekið saman fyrir fund í Ljóstæknifélagi Íslands, 3. des. 1997)

 

Ég hef verið beðinn um að segja hér nokkur orð um fundarefnið – ljósmengun. Mér er sönn ánægja að verða við þeirri ósk því að ég tel að þetta félag, Ljóstæknifélag Íslands, sé kjörinn vettvangur fyrir umræður um málefnið. Í þessu félagi vænti ég að séu þeir menn sem líklegastir eru til að geta fundið lausnir á vandamálinu og haft áhrif til úrbóta.

 

Þegar ég vakti máls á skaðsemi ljósmengunar í útvarpviðtali á síðastliðnum vetri hafði engin umræða farið fram um þetta efni hérlendis svo að mér væri kunnugt. Erlendis hafði málið hins vegar verið til alvarlegrar umfjöllunar í nokkurn tíma. Þar höfðu m.a. verið stofnuð samtök til að berjast gegn oflýsingu utan dyra. Samtökin, sem senn verða 10 ára, heita Alþjóðasamtök um dimman himin, eða International Dark-Sky Association og telja 2000 meðlimi frá 65 löndum. Þessi samtök eru mjög virk, halda fundi, gefa reglulega út fréttabréf, og þau má að sjálfsögðu finna á Veraldarvefnum. Í stjórn samtakanna eru menn úr ýmsum starfsgreinum, og eins og vænta má, eru bæði stjörnufræðingar og ljóstæknifræðingar í þeim hópi.

 

Engan þarf að undra þótt stjörnufræðingar hafi sig nokkuð í frammi í umræðu um ljósmengun, því að það er ekki ofmælt að framtíð stjörnufræðinnar sem fræðigreinar sé í húfi. Í júní 1992 var haldin ráðstefna í París um áhrif umhverfismengunar á stjörnufræði. Að ráðstefnunni stóð menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, ásamt Alþjóðasambandi vísindafélaga, Alþjóðasambandi stjörnufræðinga og Alþjóðanefnd um geimrannsóknir. Erindi og niðurstöður ráðstefnunnar voru gefin út í bókarformi undir heitinu The Vanishing Universe, eða Alheimurinn er að hverfa. Nafnið segir sína sögu og það er óhætt að segja að þessi bók er enginn skemmtilestur. Fram kemur, að þeim stöðum fer fækkandi í heiminum þar sem hægt er að sjá himininn eins og forfeður okkar sáu hann með öllum sínum aragrúa af stjörnum og öðrum fyrirbærum sem vakið hafa áhuga manna um aldir og árþúsundir. Ef ekkert verður að gert, er þess ekki langt að bíða að rannsóknir á himingeimnum stöðvist á þeim sviðum sem forvitnilegust eru og vænlegust til árangurs. Það er ekki mál sem snertir stjörnufræðinga eina heldur mannkynið allt. Fyrir utan hin menningarlegu verðmæti sem í húfi eru, er almenningur nú orðinn meðvitaðri um umhverfi sitt og gerir kröfu til þess að fá að halda því óspilltu, að svo miklu leyti sem unnt er. Það eru ekki eingöngu stjörnufræðingar sem vilja geta horft á næturhimininn. Áhugamenn um stjörnuskoðun eru margfalt fleiri en starfandi stjörnufræðingar; stjörnuskoðun mun nú vera einhver vinsælasta tómstundaiðja í veröldinni.

 

En allur almenningur á hér líka hagsmuna að gæta. Ég hef orðið þess var, síðan þessi umræða hófst hér á landi, hve margir eru áhugasamir um þetta málefni og gera sér grein fyrir því, hvað þeir hafa misst með aukinni lýsingu, ekki síst hér á Reykjavíkursvæðinu. Ótrúlega margir hafa haft samband við mig til að staðfesta þetta. Sjálfsagt eru þeir þó fleiri sem ekki hafa leitt hugann að þessu máli eða finnst það engu skipta. Í því sambandi ætla ég að leyfa mér að segja litla sögu. Fyrir skömmu var ég staddur í stórverslun hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar víkur sér að mér þjóðkunn kona, rithöfundur og alþingismaður, og segir eitthvað á þessa leið: “Ég var að hlusta á þig í vetur sem leið, Þorsteinn, þegar þú varst að tala um ljósmengunina. Þá hugsaði ég sem svo, að þetta væri nú meiri vitleysan og ekkert nema “hysteri”. En í sumar var ég stödd úti í Danmörku, úti á landsbyggðinni þar sem dimmt var og vel sást til himins. Þá skildi ég loksins hvað það var sem þú varst að tala um.”

 

Svo mörg voru þau orð. Ég leyfir mér að vona, að slík viðbrögð séu ekki einsdæmi. Fegurð næturhiminsins er slík að hún lætur engan ósnortinn, og á ég þá ekki einungis við stjörnuskarann heldur líka norðurljósin, sem oft prýða íslenskan himin. Stjörnuhiminninn er hluti af umhverfi okkar, rétt eins og fjöllin sem við höfum daglega fyrir augunum.

 

Hugsum okkur að verksmiðja í Gufunesi ylli slíkri loftmengun, að Reykvíkingar misstu allt útsýni til Esjunnar. Vafalaust gætu menn lifað við slík skilyrði. En skyldi ekki einhverjum finnast eitthvað vanta í tilveruna? Stjörnuhiminninn yfir borginni hefur smátt og smátt verið að hverfa, svo að menn hafa varla tekið eftir því. Yngsta kynslóðin í Reykjavík hefur sennilega aldrei séð Vetrarbrautina á himinhvolfinu og sjaldan norðurljós, svo að hægt væri að greina í þeim alla þeirra litadýrð. Þótt tunglið sjáist ennþá, sem betur fer, er tunglskinið, sem áður var mönnum svo mikilvægt, varla greinanlegt lengur.

 

Að tunglskinið væri að hverfa úr tilveru borgarbúa var atriði sem hafði farið fram hjá mér, enda ekkert stórmál í sjálfu sér. Ég áttaði mig fyrst á þessu fyrir nokkrum árum, þegar ég var staddur ásamt fjölskyldu minni austur í sveit, fjarri ljósadýrð höfuðborgarinnar. Þetta var um haust, orðið dimmt að kvöldi, og tunglið skein í heiði. Ég var eitthvað að bauka inni við þegar dóttir mín, þá tíu ára gömul, kom hlaupandi og sagði: Pabbi, pabbi, það er tunglskin! Ég skildi ekki hvað það var, sem henni þótti svo merkilegt, fyrr en hún útskýrði að hún hefði lesið um tunglskin í bókum, en aldrei áttað sig á því að tunglið gæti lýst upp jörðina, svo að bjart yrði úti við!

 

Rafmagnsljósið er án efa ein merkasta uppfinning í sögu mannkynsins. Frá því að farið var að lýsa upp götur og stræti með rafmagni, seint á síðustu öld, hefur almennt verið litið á raflýsingu sem óblandna blessun. Hvern hefði órað fyrir því að þetta blessað ljós, gæti orðið svo mikið að það yrði til vandræða? En á einni öld hefur margt gerst sem ekki varð séð fyrir. Mannkyninu hefur fjölgað úr 1½ milljarði í 6 milljarða. Jafnframt þessu hefur fólk hvarvetna flykkst úr sveit í þéttbýli, þar sem meiri lýsingar er þörf. Á gervitunglamyndum sem teknar eru að næturlagi má sjá hvernig glitrandi ljósadýrðin teygir sig um allar álfur. Á Íslandi hefur fólksfjöldinn fjórfaldast í takt við fjölda jarðarbúa, en íbúatala Reykjavíkur hefur þrítugfaldast á sama tíma. Við höfum sem sagt eignast borg þar sem engin var fyrir. Á síðari árum hefur lýsing á Reykjavíkursvæðinu farið stigvaxandi, ekki aðeins í hlutfalli við fólksfjöldann heldur talsvert umfram það. Til þess liggja margar ástæður, meiri áhersla á lýsingu almennt, sterkari ljósgjafar, aukin flóðlýsing, fjölgun auglýsingaskilta o.fl. Mér er til efs að nokkur borg í veröldinni sé jafn vel upplýst að næturlagi og Reykjavík. Kannski er það vegna þess að rafmagn sé hér ódýrara en annars staðar í heiminum. Menn þurfa að fara mjög langt út fyrir borgarmörkin til að komast frá birtunni. Það þekkja allir, sem komið hafa akandi að austan, yfir Hellisheiði, hvernig bjarmanum frá Reykjavík slær langt upp á himin. Jafnvel í uppsveitum Borgarfjarðar, er þessi bjarmi áberandi á himni undir vissum skilyrðum.

 

Ég ætla ekki að halda því fram að birtan frá Reykjavík spilli næturhimninum að ráði í fjarlægum landshlutum. En sveitirnar hafa sína eigin ljósmengun. Fyrir skömmu var hópur japanskra ferðamanna staddur í Borgarnesi, en þar hafa slíkir hópar oft viðdvöl. Eitt helsta áhugamál Japana sem hingað koma, er að sjá norðurljós. Til þess að komast burt frá öllum rafmagnsljósunum þannig að hægt væri að sjá norðurljós á aldimmum himni, þurftu þessir ferðamenn að fara langleiðina upp að fjallinu Baulu, og mun það vera orðin föst venja í slíkum ferðum. Rafmagnsljósin eru alls staðar, og það sem verra er, þau eru oft óskermuð, lýsa í allar áttir, og sjaldan slökkt á þeim. Sums staðar í sveit þar sem ég þekki til loga útiljós allan sólarhringinn, jafnvel um hásumarið. Hvers vegna? Líklega vegna þess að rafmagn er greitt eftir marktaxta og bændur borga fast gjald, hvort sem notkunin er meiri eða minni, meðan ekki er farið yfir viðmiðunarmarkið.

 

Í öðrum löndum er víða skóglendi sem skyggir á útiljós í dreifbýli. Á Íslandi getur eitt sterkt útiljós við sveitabæ valdið truflun í margra kílómetra fjarlægð. Sama er að segja um bílana, ljósin frá þeim valda mikilli truflun. Þetta vandamál jókst stórlega eftir að farið var að nota hinar skæru halogenperur í bílljós fyrir 20 árum eða svo. Og senn mun von á enn sterkari perum. Vissulega lýsa þessar perur betur fram fyrir bílinn en gömlu perurnar gerðu. En þær valda líka ofbirtu þegar ekið er á móti þeim, og skapa þörf fyrir meiri lýsingu við götur og vegi. Á síðustu árum hefur svo ný tegund ljósmengunar bæst við í sveitum landsins, en það eru ljós í gróðurhúsum, sem eru svo björt að þau lýsa víða upp nánasta umhverfi, og rauðgulur bjarminn sést tugi kílómetra. Ef ekið er framhjá Hveragerði að næturlagi geta menn séð hvernig ljósin í gróðurhúsunum blátt áfram lýsa upp fjallshlíðina á móti, þ.e.a.s. Hellisheiðina.

 

En hvað er til ráða í þessum efnum? Enginn getur verið án lýsingar að næturlagi. Aðalatriðið er að lýsingin sé ekki meiri en þörf er á, og að þess sé gætt eftir fremsta megni að ljósið beinist þangað sem það gerir gagn og ekki annað. Það er ekki aðeins útsýnið til himins, sem við þurfum að hafa í huga; of skær birta getur líka verið til óþæginda og hættuleg fyrir umferð. Ljós sem skín inn um glugga getur líka verið hvimleitt og jafnvel truflað svefn þeirra sem viðkvæmir eru. Annar ávinningur við bætta lýsingu er svo auðvitað orkusparnaðurinn. Meðal þess sem til álita kemur er að takmarka flóðlýsingu og lýsingu í auglýsingaskyni eftir ákveðinn tíma að kvöldi. Þar sem lýsingar er talið þörf, öryggis vegna, má tengja ljósin nemum sem skynja umgang. Áríðandi er að ljós beinist ekki lárétt eða upp á við. Þetta á sérstaklega við um ljós við götur og vegi, sem talið er að valdi um það bil helmingi allrar ljósmengunar. Hugsanlegt er að taka frá sérstök svæði og vernda þau fyrir ljósmengun, t.d. þjóðgarðinn á Þingvöllum. Bein lýsing, sem veldur ofbirtu, er auðvitað versti skaðvaldurinn. Útiljós við einn bæ í Þingvallasveit spillir þannig næturhimninum fyrir fjölda sumarbústaðaeigenda þótt þeir séu í talsverðri fjarlægð. En óbein lýsing hefur líka áhrif. Ljósin í Reykjavík lýsa upp loftið yfir borginni þannig að himinninn verður ekki eins dimmur og annars myndi vera, þótt athugandinn haldi sig í skugga og forðist öll ljós.

 

Nokkar borgir hafa nýlega sett mjög strangar reglur til að takmarka lýsingu, og má þar nefna Tuscon í Arizona, Augsburg í Þýskalandi og Canberra í Ástralíu. Víða annars staðar hafa fyrstu skrefin verið stigin til að bæta ástandið, t.d. í Los Angeles og Denver í Bandaríkjunum. Nokkuð hefur verið rætt um það hvort það geti aukið hættuna á innbrotum og öðrum glæpum að draga úr lýsingunni. Um það eru skiptar skoðanir, en reynslan bendir til að svo þurfi ekki að vera. Í fylkinu Massachusetts í Bandaríkjunum hefur víða verið dregið úr götulýsingu borga og bæja um helming eða meira, fyrst og fremst í sparnaðarskyni, án þess að nokkur aukning hafi orðið á glæpum eða slysum í umferð.

 

Í janúar síðastliðnum óskaði ég eftir fundi með borgarstjóra um ljósmengun í Reykjavík. Í fylgd með mér var Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur sem þá var nýkominn frá Kaupmannahöfn, en þar hafði einmitt verið athyglisverð ráðstefna um ljósmengun sem sagt var frá á forsíðum danskra blaða. Borgarstjóri sýndi málinu skilning en tjáði okkur jafnframt að sífellt bærust nýjar óskir um flóðlýsingu bygginga í Reykjavík. Að tilstuðlan borgarstjóra var efnt til fundar um málið hjá gatnamálastjóra sl. vor. Á þeim fundi voru, auk gatnamálastjóra, fulltrúar borgarskipulags og Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Ýmsar hugmyndir voru þar reifaðar, s.s. að draga úr lýsingu á umráðasvæði Hitaveitunnar á Öskjuhlíð og á Nesjavöllum, að gera öllum skylt að sækja um leyfi til flóðlýsingar, að athuga hvort hægt væri að slökkva ljós á nóttunni á sumum útivistarsvæðum í eigu borgarinnar, og að reyna að vernda eitthvert svæði í nágrenni borgarinnar fyrir ljósmengun. Var Heiðmörk sérstaklega nefnd í því sambandi. Að lokum var þeirri spurningu varpað fram, hvort hugsanlega mætti draga úr götulýsingu þau fáu kvöld, sem heiðskírt væri í Reykjavík. Fundargerðin var send Umhverfismálaráði Reykjavíkur sem sendi frá sér umsögn hinn 12. júní. Umsögnin er ekki löng, en hún hljóðar svo:

 

“Umhverfismálaráð getur tekið undir það sjónarmið að innan borgarlandsins sé ólýst svæði þar sem góð aðstæða er til stjörnuskoðunar. Vel kæmi til greina að hluta af Heiðmörk mætti nýta á þennan hátt.”

 

Þessi fáu orð gefa ekki tilefni til mikillar bjartsýni; þar er aðeins tekið undir hluta af einni þeirra hugmynda sem fram höfðu komið í umræðunum. En jafnvel þótt vilji væri fyrir hendi, bæði hjá yfirvöldum og almenningi, er þess ekki að vænta að hægt sé að draga stórlega úr ljósmengun á skömmum tíma. Fyrsta markmiðið ætti að vera að koma í veg fyrir frekari spjöll en orðin eru með því að setja strangari reglur um flóðlýsingu og ljósabúnað almennt. Það út af fyrir sig væri mikilsverður árangur. Síðan þyrfti að takast á við það langtímaverkefni að breyta þeim ljósum sem þegar hafa verið sett upp. Þar geta sérfræðingar í ljóstækni veitt mikilvæga aðstoð. Ég treysti því að Ljóstæknifélag Íslands muni veita liðsinni sitt til að ná fram endurbótum á þessum vettvangi.