Norðurljósaspá

Logn á Leirvogi

segul001

Lognið á undan storminum?

Línuritin frá Leirvogi hafa nú róast niður eftir nokkurra daga dans. Miklar líkur eru þó á því að mikið fjör eigi eftir að færast í leikana því stærsti sólblettur þessarar 11 ára sólarsveiflu er kominn í skotlínu á Jörðina. Mikill órói er í þessum risasólbletti og hefur hann verið að valda fjarskiptatruflunum vegna stöðugra sólblossa. Engar efniseindir hafa þó enn sem komið er verið að berast vegna þessara sólblossa en gríðarmikill efniviður er fyrir hendi verði alvöru sólgos. Dæmi eru um norðurljós allt suður til Flórída og Kúbu eftir að svona blettir hafa gosið efniseindum. Alvöru sólgos næstu 4-6 daga er alvörumál. Dæmi eru um að heilu raforkukerfin hafi slegið út vegna stórra sólgosa vegna yfirspennu sem myndast í háspennulínum. Þetta gerðist í Kanada 13. mars 1989. Sjá HÉR.  Þó líkurnar séu kannski ekki miklar þá má kannski segja að við séum með tvö mikil óróasvæði yfir okkur núna sem stjarnfræðilega séð geta gosið og í leiðinni ógnað raforkukerfum okkar – annað í þessum risabletti á Sólinni og hitt í öskju Bárðarbungu.