Gul frétt

Reykjavíkurborg fer “Kópavogsleiðina”

GUL FRÉTT.

Nákvæmar afsteypur gatnakerfis Kópavogs frá áttunda áratug fyrri aldar verða notaðar í Reykjavík næstu misseri.

Dagur B. Eggertson Borgarstjóri hefur kynnt nýjustu samgöngubót Reykvíkinga. Um er að ræða eftirlíkingu af náttúrulegum hraðahindrunum eins og þeim er tíðkuðust í Kópavoginum á áttunda áratugnum.

Með nýrri tækni hefur tekist að gera nákvæma afsteypu af tíu stærstu slitlagsskemmdunum sem voru margfrægar á sínum tíma í Kópavogi eftir að gamlar slædsmyndir voru skannaðar inn í tölvu og prentaðar út með nýjum þrívíddarprentara sem fenginn hefur verið í verkið.

Mun þessum svokölluðu “slitlagsskemmdum” verða komið fyrir næstu misseri á helstu akbrautum og stofnæðum í stað hinna svokölluðu “púða” sem ýmis bifhjólasamtök hafa mótmælt.

Evrópusambandið hefur veitt undanþágu frá merkingum við þessar svokölluðu “náttúrulegu” hraðahindranir á grundvelli frumbyggjaréttar, samsskonar og fengin var á sínum tíma vegna hvíldartímaútskota vöruflutningabifreiðastjóra sem þykja nauðsynleg allstaðar í veröldinni nema á Íslandi.

Innflytjendur gorma, höggdeyfa, hjólbarða, stýrisenda og annarra slithluta í bifreiðum styrkja verkefnið enda um gríðarlega lyftistöng fyrir þessa aðila að ræða. Flestir borgarfulltrúar og Alþingismenn eru stórir hluthafar.